Fyrsta lúxusvín ársins 2025 kemur frá vínhúsi André Chemin. André og Micheline Chemin stofnuðu fyrirtækið árið 1948 og hafa frá upphafi verið hluti af samvinnufélagi kampavínsbænda í þorpunum Sacy og Écueil, sem var stofnað sama ár. Samvinnufélagið leggur til þrúgupressu og átöppunarvél, ásamt því að eiga víntanka sem bændur geta notað. André er enn við hestaheilsu og fylgist með gangi mála í fjölskyldufyrirtækinu, en nú eru það barnabarnið Sebastian sem sér um framleiðsluna ásamt Evu eiginkonu sinni.
Vínið sem við bjóðum ykkur upp á í janúar er sérstakt að því leyti að það hefur haft viðkomu í eikartunnum. Dvölin í eikartunnunum gefur víninu dýpt og flóknari bragðtóna en oftast er að finna í kampavínum.
About Time Millésime er árgangsvín, árgerð 2011. Þetta vín er hreint Chardonnay sem kemur af Premier Cru vínekrum Chemin-fjölskyldunnar við þorpið Sacy. Að lokinni fyrstu gerjun er vínið látið hvíla í eikartunnum í 6 mánuði áður en það er sett á flöskur þar sem seinni gerjun á sér stað. Vínið var svo látíð hvíla í 12 ár áður en það var tekið upp úr kjallaranum.
Sykurmagnið í víninu eru 3 g/L og það flokkast því sem Extra Brut.
Kampavín með eikarþroskun eru frábær matarvín og ráða við mun flóknari rétti en mörg önnur kampavín. Við mælum með að para það með pönnusteiktum laxi og trufflurisotto.
Hráefni – Lax
4 laxaflök (með eða án roðs, eftir smekk)
2 msk ólífuolía
Salt og pipar (eftir smekk)
1 sítróna (fyrir skvettu og skreytingu)
Hráefni – Trufflurisotto
1 bolli arborio-hrísgrjón (risottógrjón)
2 skalottulaukar, fínt saxaðir
2 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
2 msk ólífuolía
1/2 bolli hvítvín (má sleppa ef óskað er)
4 bollar heitt kjúklinga- eða grænmetissoð
1/2 bolli rifinn parmesanostur
2 msk smjör
1-2 tsk truffluolía (eftir smekk)
Salt og pipar (eftir smekk)
Risotto
Hitið soðið í potti og haldið því heitu á lágum hita.
Hitið ólífuolíuna í potti yfir meðalhita. Bætið lauknum út í og steikið þar til hann er mjúkur, um 3-4 mínútur. Bætið hvítlauknum út í og steikið í 1 mínútu í viðbót.
Bætið arborio-hrísgrjónum við og hrærið þar til þau eru léttgljáandi.
Hellið hvítvíninu yfir (ef notað) og látið það sjóða niður.
Bætið soðinu út í með ausu, ein ausa í einu, og hrærið reglulega. Látið vökvann gufa upp á milli áður en næsta ausa er bætt við. Endurtakið þar til grjónin eru mjúk með smá bit (al dente), um 18-20 mínútur.
Þegar risottoið er tilbúið, takið það af hitanum. Hrærið parmesanosti, smjöri og truffluolíu saman við. Smakkið til með salti og pipar.
Lax
Þerrið laxaflökin með eldhúspappír. Kryddið með salti og pipar.
Hitið ólífuolíu á meðalheitri pönnu. Setjið laxinn á pönnuna með roðið (ef það er á) niður fyrst. Steikið í 3-4 mínútur, eða þar til roðið er stökkt.
Snúið flökunum við og steikið í 2-3 mínútur í viðbót, þar til laxinn er fallega gylltur og rétt soðinn í gegn.
Kreistið smá sítrónusafa yfir laxinn áður en hann er borinn fram.
Framreiðsla
Setjið risottoið í miðjuna á diski.
Leggið pönnusteikt laxaflakið ofan á risottoið.
Skreytið með rifnum parmesan, smá skvettu af truffluolíu og sítrónubáti.
Njótið með Andre Chemin About Time Millésime 2011 !