Copied to clipboard

Vín mánaðarins í febrúar 2025 er Allouchery-Perseval La Réserve Brut

Fyrsta lúxusvínið sem við færðum ykkur kom frá vini okkar Emilien Allouchery og það er okkur sönn ánægja að færa ykkur annað vín frá honum. Emilien er uppalinn á vínekrum fjölskyldu sinnar við þorpið Ecueil, rétt utan við borgina Reims.  Hann lærði víngerðarfræði í Champagne og Bourgogne, en hélt síðan til Nýja-Sjálands og Suður-Afríku þar sem hann aflaði sér meiri þekkingar og reynslu í víngerð. Hann tók svo við fjölskyldufyrirtækinu árið 2006 og hefur séð um það síðan.

Við hittum Emilien á Paris Wine Expo í síðustu viku og hann var ákaflega stoltur af því að vínin hans væru komin til Íslands.  Októbervínið fékk afar góðar viðtökur hjá ykkur og við erum sannfærð um að þið verðið líka hrifin af þessu víni.

Vín febrúarmánaðar er „næstum því“ árgangsvín.  Það er að stærstum hluta gert úr uppskeru ársins 2017 en u.þ.b. 10% eru úr „varavíninu“. Vínið er gert úr þrúgunum Pinot Noir og Chardonnay sem koma af Premier Cru-vínekrum.  Að lokinni seinni gerjun fær vínið að hvíla í tæp 6 ár í flöskunni áður en botnfallið er hreinsað frá og korktappinn settur í.

Sykurmagnið er 6-7 grömm/lítra og vínið telst því vera þurrt eða Brut.

Vínið nýtur sín vel sem fordrykkur en er líka ákaflega gott matarvín, þá t.d. með ljósu fuglakjöti, fiskréttum eða kálfakjöti.

Svínakótilettur með hunangi og hvítlauk

Hráefni:

  • 4 svínakótilettur (með eða án beins)
  • salt
  • pipar
  • 1 tsk hvítlauksduft
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 msk smjör
  • 6 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
  • ¼ bolli hunang
  • ¼ bolli kjúklingasoð
  • 2 msk hv’itv’insedik eða eplaedik (eða hvaða hvíta edik sem er)
  • 1-2 msk vatn (valfrjálst)

Aðferð:

  1. Hitið ofngrillið (eða útigrill) á meðalháan hita. Kryddið kótiletturnar með salti, pipar og hvítlauksdufti áður en þær eru eldaðar.

  2. Hitið olíu á pönnu eða í steikarpönnu við meðalháan hita þar til hún er heit. Steikið kótiletturnar þar til þær verða gullinbrúnar á báðum hliðum og eldaðar í gegn (um 4-5 mínútur á hvorri hlið). Takið af pönnunni og leggið til hliðar.

  3. Lækkið hitann í meðal. Bræðið smjörið í sömu pönnu og skafið upp brúnaða bitana af botninum. Steikið hvítlaukinn þar til hann fer að ilma (um 30 sekúndur).

  4. Bætið hunangi, kjúklingasoði og ediki út í. Hækkið hitann aftur í meðalháan og eldið þar til vökvinn hefur minnkað og þykknað aðeins (um 3-4 mínútur), hrærið af og til. Ef sósan verður of þykk, bætið við 1-2 msk af vatni.

  5. Setjið svínakótiletturnar aftur á pönnuna, veltið þeim vel upp úr sósunni og grillið í ofni eða á útigrilli í 1-2 mínútur.

  6. Skreytið með ferskri steinselju og berið fram með grænmeti, hrísgrjónum, pasta eða salati.

Njótið með Allouchery-Perseval La Réserve Brut!