Bara-fjölskyldan hefur stundað vínrækt í Bouzy-héraði í tæp 200 ár. Paul Bara, sem víngerðin er kennd við, var fimmti ættliður Bara-fjölskyldunnar sem stundaði vínræktina en sá fyrsti sem fór að gera vín undir merkjum fjölskyldunnar. Hann lét breyta fjósi og hlöðu í víngerðarhús, og gróf einnig út kjallara þar sem vínin eru nú geymd og látin þroskast. Paul Bara var á meðal fyrstu „smáframleiðenda“ í Champagne sem hófu að flytja vín sín út fyrir Frakkland og í dag eru vín Paul Bara seld um allan heim. Í dag er það dóttir Paul, Chantale Bara sem heldur um stjórnartaumana ásamt Stéphanie dóttur sinni.
Vínekrur Paul Bara ná yfir um 11 hektara lands – allt Grand Cru-vínekrur – 9,5 hektarar af Pinot Noir og 1,5 hektari af Chardonnay. Allt víngerðarferlið miðast við sjálfbærni og umhverfisvernd – engin skordýraeitur koma nálægt vínekrunum og súlfíðnotkun er haldið í lágmarki. Öll kampavín Paul Bara er látin hvíla í minnst 5-6 ár áður en þau fara á markað.
Lúxusvín maímánaðar er Grand Cru kampavín frá Paul Bara, gert úr þrúgunum Chardonnay (20%) og Pinot Noir (80%). Vínviðurinn er um 50 ára gamall sem er kjöraldur fyrir góðan vínvið. Stærstur hluti þrúganna er árgangur 2018 en örlitlu varavíni var bætt út í. Vínið er látið hvíla í 5 ár í kjallara Bara-fjölskyldunnar áður botnfallið var skilið frá í júlí 2024 og korktappinn settur í.
Þremur grömmum af sykri var bætt í vínið og það er því Extra-Brut.
Líkt og önnur kampavín er þetta ákaflega gott eitt og sér en við mælum með að þið prófið það með grilluðum risarækjum.
Rækjuspjót:
24 risarækjur
1 ferskur ananas, skorinn niður í 2 cm bita
1 rauð paprika, skorin niður í 2 cm bita
1 rauðlaukur, afhýddur og skorinn niður í 2 cm bita (hver biti er 1 lag á þykkt)
8 grillspjót (tréspjót þarf fyrst að leggja í bleyti í 30 mínútur)
Kryddlögur:
4 matskeiðar sojasósa
4 matskeiðar hunang
1 matskeið Sriracha-sósa (ef þið viljið hafa þetta pínu spicy)
Safinn úr einu lime
1 teskeið engifer, maukað
1 stórt hvítlauksrif, kramið