Copied to clipboard

Vín mánaðarins í júlí 2025

Vín mánaðarins í júlí 2025 er Famille Delouvin Semper Fidelis XVII

Áin Marne rennur letilega í gegnum Champagne og sameinast ánni Signu sem síðar fer í gegnum París á leið til sjávar.  Í Marne-dalnum, vestur af Epernay, er helsta ræktunarsvæði þrúgunnar Meunier sem er ein af þremur aðalþrúgunum í kampavínum. 

Í þorpinu Vandieres, sem liggur við hægri bakka Marne-árinnar (u.þ.b. fyrir miðjum dalnum) er aðsetur Delouvin-Nowack.  Delouvin og Nowack fjölskyldurnar hafa lengi komið að víngerð í Champagne, bæði sem vínræktendur og tunnusmiðir.  Lengst af voru þrúgurnar seldar til stóru vínhúsanna sem réðu markaðnum, en á 4. áratug síðustu aldar fóru Delovin og Nowack að gera sín eigin vín.  Leiðir þeirra lágu svo saman með brúðkaupi Eliane Nowack og Pierre Delouvin árið 1949.  Ungu hjónin hófu að framleiða eigin vín og í dag er það barnabarnabarn þeirra Geoffrey Delouvin sem sér um víngerðina.

Geoffrey gerir annars vegar „hefðbundin“ kampavín, sem eru seld undir merkjum Delouvin-Nowack, og hins vegar kampavín sem eru seld undir merkinu Famille Delouvin og eru undir smá Búrgúndaráhrifum – einnar vínekru-vín sem að hluta eru látin gerjast í eikartunnum.  Öll kampavínin fá að lágmarki 3 ára þroskun í flösku (lágmarkið í Champagne eru 15 mánuðir).

Lúxusvín júlímánaðar er Semper Fidelis XVII úr fjölskyldulínu Delouvin.  Þetta vín er eingöngu gert úr Meunier-þrúgum sem allar koma af vínekru fjölskyldunnar í Vandieres.  Helmingur vínsins kemur úr uppskeru árins 2017 en hinn helmingurinn úr árgangablöndu („solera“) sem nær aftur til ársins 1993.  Vínið fékk 60 mánaða þroskun áður en botnfallið var skilið frá og 6 mánuði til viðbótar áður en fyrstu flöskurnar fóru úr kjallara Delouvin-Nowack.  Alls voru gerðar 4.032 flöskur af þessu víni.

Sykurmagnið í víninu er 5 g/L og það er því Extra-Brut.

 
 

 

 

Við mælum með að þið njótið þessa víns með truffluðu svepparisotto.

Trufflað svepparisotto

Hráefni:

2 msk ólífuolía

2 stórir skalottulaukar, saxaðir

200 gr ferskir sveppir í sneiðum (gjarnan nokkrar tegundir)

4 dL Arborio-hrísgrjón

2,5 dL hvítvín

8 dL grænmetissoð

Trufflur/truffluolía eftir smekk

2 dL rifinn parmesanostur

Aðferð:

Hitið olíu á pönnu við meðalhita, bætið lauknum við og látið krauma í nokkrar mínútur eða þar til laukurinn hefur mýkst og er orðinn glær.

Bætið sveppunum við og steikið í 1-2 mínútur.  Bætið hrísgrjónumvið og steikið í u.þ.b. 3 mínútur þar til hrísgrjónin verða ögn gegnsæ.

Setjið hvítvín út á og látið sjóða, gætið þess að hræra öðru hvoru í pönnunni.  Þegar vökvinn er að klárast bætið þið við 1 dL af grænmetissoði og látið sjóða áfram.  Soðinu bætt út í smátt og smátt þar til það er búið og hrísgrjónin hafa tekið upp vökvann (um 20-25 mínútur). Hrísgrjónin ættu að veita örlítið viðnám undir tönn – al dente – en ekki vera gegnsoðin.

Þegar hrísgrjónin eru soðin má bæta trufflum saman við og smakka til þar til þið eruð sátt við bragð og áferð.  Látið hvíla í nokkrar mínútur.  

Að lokum er parmesanostinum bætt út í og jafnvel meiri trufflum.

Berið fram með litlum kvisttómötum og skreytið með fínsaxaðri steinselju.

Njótið með Famille Delouvin Semper Fidelis XVII