Collard-Picard er fjölskyldurekið kampavínhús í hjarta Champagne, sem hefur byggt upp orðspor sitt á blöndu af hefð og nýsköpun. Það var stofnað árið 1996 þegar Olivier Collard, af víngerðarfólki í Mailly-Champagne í Montagne de Reims, og Carole Picard, af gömlum vínbýli í Mesnil-sur-Oger í Côte des Blancs, rugluð saman reytum sínum. Þannig varð til hús sem nýtir styrkleika tveggja mikilvægustu svæða Champagne – Pinot Noir frá Montagne de Reims og Chardonnay frá Côte des Blancs.
Víngarðarnir Collard-Picard ná yfir um það bil 15 hektara, flestir á Grand Cru og Premier Cru-svæðum. Vínviðurinn er ræktaður með umhyggju fyrir jarðvegi og líffræðilegum fjölbreytileika. Collard-Picard hefur lagt áherslu á að sameina klassíska kampavínshefð við nútímalegar aðferðir, til dæmis með notkun eikartunna í gerjun og þroskun sem gefur vínum þeirra meiri dýpt og flókið bragð.
Lúxusvín októbermánaðar er ADN-Noir Blanc de Noirs Extra-Brut frá Collard-Picard. Vínið er blanda af svörtu þrúgunum Pinot Noir (50%) og Meunier (50%) sem koma frá Vallée de la Marne. Vínið er að stærstum hluta (60%) uppskera ársins 2018, en 40% er blanda af varavínum frá 2015, 2016 og 2017-árgöngunum. Vínið var látið liggja í 6 ár í kjallara Collard-Picard áður en botnfallið var skilið frá (febrúar 2025) og korktappinn settur í.
Sykurmagnið í víninu er 3 g/L og það er því Extra-Brut. Sama vín er hægt að fá í Demi-Sec útgáfu sem inniheldur 39 g/L sykur.
Vínið nýtur sín vel sem fordrykkur en við mælum með að þið prófið það líka með hvítmygluostum og þroskuðum geitaostum!