Copied to clipboard

Vín mánaðarins í mars 2025 er Guy de Chassey Grand Cru Blanc de Noirs Extra Brut

 
 

 

 

Þorpið Louvois skammt frá Reims á sér langa sögu sem nær aftur til fyrri hluta 13. aldar. Á 17. öld byggði Margreifinn af Louvois mikinn kastala sem síðar komst í eigu dætra Lúðvíks 16. Frakkakonungs. Kastalinn, sem státaði af 50 hektara garði með tjörnum og gosbrunnum, var almennt kallaður Château des Dames de France og gekk undir því nafni þar til hann var eyðilagður eftir frönsku byltinguna.  Síðar var þar byggður nýr kastali, öllu minni, með ”aðeins” 35 hektara garði sem er að mestu skógi vaxinn.  Sá kastali er nú í eigu kampavínshúss Laurent Perrier.

Andspænis kastalanum er vínhús Guy de Chassey sem nú er undir stjórn sjöunda ættliðs de Chassey-fjölskyldunnar – Ingrid de Chassey, sem nýtur aðstoðar móður sinnar Marie. Vínekrurnar við Louvois flokkast sem Grand Cru, en Louvois er eitt af 17 þorpum í Champagne sem eru flokkaðar sem Grand Cru.  Vínekrur Guy de Chassey ná yfir 9,5 hektara, þar sem 75% vínviðarins er Pinot Noir og 25% Chardonnay.

Ingrid og Marie leitast við að hafa alla víngerðina sjálfbæra og umhverfisvæna, og vínhús Guy de Chassey er viðurkennt sem Haute Valeur Environnemental (HVE).  Þrúgurnar eru pressaðar í viðarpressu og vínin gerjuð í hitastýrðum stáltönkum.  Þegar kemur að því að snúa flöskunum á hvolf til að losna við botnfallið (remuage) er það gert á gamla mátann með handafli.

Lúxusvín aprílmánaðar er Blanc de Noirs – Hvítt úr Svörtu – þar sem eingöngu er notast við Pinot Noir þrúgur, gerjaðar í stáltönkum.  Víníð var sett á flöskur 18. Mars 2021 og síðan  látið hvíla í 43 mánuði.  Botnfallið var losað frá 10. Október 2024 og korktappinn settur í.

 
 

 

 

Engum sykri var bætt í vínið og það er því Extra-Brut.

 
 

 

 

Þetta vín fer vel með grilluðum humri, steiktum kjúklingi eða bara eitt og sér.

Heilsteiktur kjúklingur à la Julia Child

Hráefni

 
 

 

 

  • 1 heill kjúklingur (1.5–2 kg)
  • Salt og nýmalaður svartur pipar
  • 2 msk mjúkt smjör
  • 1 sítróna, skorin í tvennt
  • 4–5 hvítlauksgeirar (heilir eða kramdir)
  • 2 greinar ferskt timían (eða rósmarín)
  • 1 laukur, skorinn í fjóra hluta
  • 2 msk ólífuolía eða meira smjör
  • ½ bolli hvítvín (valfrjálst)
  • 1 bolli kjúklingasoð (ef vill til að búa til soðsósu eftir steikingu)

Aðferð

  1. Forhitið ofninn í 220°C (blástur ef mögulegt).
  2. Þerrið kjúklinginn vel með eldhúspappír og kryddið hann ríkulega að innan og utan með salti og pipar.
  3. Setjið sítrónuhelmingana, hvítlaukinn og jurtirnar inn í kjúklinginn. Lokið opnum endanum með tannstöngli eða bindið kjúklinginn með eldhúsgarni.
  4. Nuddið húðina með smjöri og hellið örlítið af olíu yfir.
  5. Leggið kjúklinginn á grind í ofnskúffu eða í djúpan steikingarpott (t.d. le Creuset), bringu upp.
  6. Steikið í 15 mínútur við 220°C til að fá stökkar brúnir, lækkið svo hitann í 175°C og steikið áfram í 45–60 mínútur, eða þar til kjarnhiti í læri mælist um 75°C.
  7. Hellið hvítvíni og/eða kjúklingasoði í botninn síðustu 20 mínúturnar ef þið viljið búa til góða sósu og halda kjúklingnum safaríkum.
  8. Leyfið kjúklingnum að hvíla í 10–15 mínútur áður en hann er skorinn.

Ef þið viljið gera steikarsósu til að bera fram með kjúklingnum takið þið steikingarvökvann og setjið í pott, látið sjóða niður um helming. Þykkið með smá smjöri og hveitiblöndu eða rjóma og bragðbætið með smá salti og pipar.

Þetta er ein af uppáhaldsuppskriftum Julia Child – einföld, bragðgóð og virkilega áhrifarík. Best borin fram með ofnbökuðum kartöflum eða grilluðum grænmetisréttum, ásamt Guy de Chassey Grand Cru Blanc de Noirs Extra Brut!