Copied to clipboard

Vín desember mánaðar er Hervieux-Dumez Special Club Brut Millesime 2018

 

Lúxusvín desembermánaðar er sannkallaður fjársjóður!  Vínið er framlag Hervieux-Dumez til Fjársjóðsklúbbs Champagne – Club Tresors de Champagne.  Club Tresors var stofnaður árið 1971 af 12 rótgrónum fjölskylduvínhúsum í Champagne með það markmið að auka gæði í vínrækt og víngerð, auk þess að draga fram sérkenni hvers framleiðanda.  Á hverju ári leggja meðlimir klúbbsins til árgangsvín sem þarf að standast tvö gæðapróf óháðra sérfræðinga – fyrir átöppun á flösku og áður en þau fara í sölu.

Vínhús Hervieux-Dumes, sem er eitt af stofnendum Club Tresors, er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1920.  Henri Hervieux var í franska hernum í fyrri heimstyrjöldinni og var sendur til Champagne.  Þar kynntist hann Juliette Dumez, en fjölskylda hennar hafði lengi stundað vínrækt í Sacy.  Þau giftust og stofnuðu eigið vínhús árið 1920.  Í dag sér fjórði ættliður fjölskyldunnar – Laurent, Clément og Timothée – um reksturinn og býflugurnar!  Mikil áhersla er lögð á sjálfbærni í ræktuninni og reynt að stuðla að fjölbreyttu lífríki á vínekrunum.  Skordýraeitur eru ekki notuð heldur notast við náttúrulegar aðferðir til að vinna á skaðvöldum á borð skordýr. Býflugnabú er víða að finna á vínekrunum og við getum vottað að hunangið þeirra er dásamlegt!

Fjársjóðsvín Hervieux-Dumez er aðeins gert þegar gæði uppskerunnar eru nægilega góð, líkt og árið 2018.  Vínið er gert úr þrúgunum Chardonnay (50%), Pinot Noir (30%) og Meunier (20%), sem koma af Premier Cru-vínekrum fjölskyldunnar við þorpin Sacy, Shamery og Ecueil.  Eftir fyrra gæðapróf dómnefndar Fjársjóðsklúbbsins var vínið sett á flöskur þar sem það fékk að hvíla í 4 ár áður en það fór í seinna gæðaprófið – sem það stóðst með glæsibrag!

Sykurmagnið í víninu eru 7 g/L og það flokkast því sem Brut.

Vínið er dásamlegt eitt og sér, og tilvalið að njóta þess um jól eða áramót.  Líkt og nær öll kampavín er það þó líka tilvalið með mat og þá leggjum við til að þið prófið það með Foie Gras.

Foie gras með mangó- og ástaraldinsultu

 
 

 

 

Foie gras er dásamlegt með kampavíni og góðri sultu. Hér er uppskrift að girnilegum forrétti þar sem Foie gras er parað við sultu úr mangó og ástaraldrinum. Best er að gera sultuna alveg frá grunni, en ef þið eruð í tímaþröng þá er hægt að stytta sér leið með tilbúnu mangó chutney og bæta ástaraldini út í…

Hráefni:

2 sneiðar af Foie gras

1 stór dós Foie gras kæfa

1 snittubrauð

Nokkur rauð ber til skreytingar

Nokkur korn af rósapipar, kramin

Saltflögur

Ólífuolía

 

Aðferð:

Skerið Foie gras sneiðarnar í tvennt.  Skiptið Foie gras kæfunni í 4 hluta.

Skerið snittubrauðið í þunnar sneiðar (1 cm), penslið með smá ólífuolíu og ristið á pönnu.

Steikið Foie gras sneiðarnar stutta stund á hvorri hlið, setjið svo á brauðsneið.

Setjið Foie gras kæfuna á brauðsneið.

Setjið smá rósapipar á kæfuna og saltflögur á Foie gras sneiðarnar.

Berið fram með mangó- og ástaraldinsultu.

Mangó- og ástaraldinsulta

 
 

 

 

Hráefni:

1 mangó

2 ástaraldin (safinn)

100g púðursykur

3 msk sherrýedik

1 kardimommufræ

Salt og nýmalaður svartur pipar

 

Aðferð:

Afhýðið mangóið og skerið í litla teninga.  Setjið mangóið í pott ásamt púðursykri, ediki, kardimommufræinu og safanum úr ástaraldinunum.  Sjóðið við vægan hita í 15-20 mínútur (hafið lok á pottinum), hrærið í af og til.

Látið kólna.