André og Micheline Chemin stofnuðu fyrirtækið árið 1948 og hafa frá upphafi verið hluti af samvinnufélagi kampavínsbænda í þorpunum Sacy og Écueil, sem var stofnað sama ár. Samvinnufélagið leggur til þrúgupressu og átöppunarvél, ásamt því að eiga víntanka sem bændur geta notað. André er enn við hestaheilsu og fylgist með gangi mála í fjölskyldufyrirtækinu, en nú eru það barnabarnið Sebastian sem sér um framleiðsluna ásamt Evu eiginkonu sinni.
Það er kominn tími á bjóða ykkur upp á rósavín! Í Champagne eru þrjár aðferðir leyfilegar til að búa til rósa kampavín. Langalgengast er að búa til hvítan kampavínsgrunn og síðan er smávegis af rauðvíni bætt út í (5-20% af lokablöndunni) áður en seinni gerjunin er sett af stað í flöskunni. Minna notaðar eru blæðingaraðferðin (Saignée) og bein pressun. Í blæðingaraðferðinni eru rauðu þrúgurnar pressaðar, safinn látinn liggja með hýðinu í nokkrar klukkustundir (allt upp í 1-2 daga) áður en safinn er „blæddur“ af og notaður í kampavínið sem er yfirleitt með dýpri lit og meiri ávaxtabragð en blöndunaraðferðin. Með beinni pressun eru rauð berin pressuð þannig að örlítill litur dragist úr þeim. Bein pressun er lítið notuð í Champagne en er algeng í t.d. Provence.
Lightbreaker Rosé er búið til með blöndunaraðferðinni. Grunnvínið er gert úr Pinot Noir (82%) og Chardonnay (18%). Út í það er svo blandað rauðvíni (8% af heildarblöndunn) úr Pinot Noir. Að lokinni seinni gerjun var vínið látið ligga 3 ár í flösku áður en það var tekið úr kjallaranum.
Sykurmagnið í víninu er 6 g/L og það er því Brut.
Rósa kampavín eru yfirleitt mjög góð matarvín og við mælum með að para þetta vín með grilluðum lambalundum!
Hráefni:
Lambalundir (um 200 grömm á mann)
1-2 rauðar paprikur
1-2 búnt vorlaukar
1-2 kúrbítar
Ólífuolía
Salt & Pipar
Aðferð:
Penslið lundirnar með olíu, kryddið með salti og pipar og látið hvíla við stofuhita í u.þ.b. 1 klst.
Skerið kúrbítinn í 1 cm þykkar sneiðar, penslið með olíu og saltið.
Snyrtið vorlaukinn, penslið með olíu og saltið.
Skerið paprikuna í 2 cm breiða strimla, penslið með olíu og saltið.
Grillið lundirnar á vel heitu grill, um 3-4 mínútur hvor hlið. Takið lundirnar af grillinu og látið hvíla í 10 mínútur.
Á meðan er grænmetið grillað á vel heitu grilli, um 7-10 mínútur.
Berið lundirnar fram með grilluðu grænmeti, fallegu salati og Andre Chemin Lightbreaker Rose!