Lúxusvín nóvembermánaðar kemur frá fjölskyldufyrirtæki Sadi Malot. Vínhúsið var stofnað af Socrate Malot, en hann nefndi fyrirtækið eftir Sadi bróður sínum, sem fæddist daginn sem Sadi Carnot forseti Frakklands var myrtur. Sadi lést á vígvellinum í fyrri heimsstyrjöldinni. Í dag er það fimmta kynslóð Malot-fjölskyldunnar sem annast vínekrurnar sem eru við þorpin Villers-Marmery og Verzy, rétt sunnan við borgina Reims.
Vínekrurnar við Villers-Marmery flokkast sem Premier Cru, og þar ræktar Malot-fjölskyldan Chardonnay-þrúgur. Vínekrurnar við Verzy eru hins vegar flokkaðar sem Grand Cru – hæsti gæðaflokkurinn í Champagne – og þar eru ræktaðar Pinot Noir-þrúgur.
Vínið sem við færum ykkur í nóvember nefnist Brut Authentique. Það er eingöngu gert úr Chardonnay og kallast því Blanc de Blancs („hvítt úr hvítu“). Vínið er gerjað í stórum eikarámum. Hluti vínsins er settur til hliðar og blandað saman við „varavínið“ (hvað er varavín?), en varavín Sadi Malot er samfelld blanda árganga frá árinu 2010.
Þetta vín er að mestu gert úr þrúgum frá árinu 2019, en um 15-20% eru fengin úr varavíninu. Vínið er svo látið þroskast í 4-5 ár í kjallara Malot-fjölskyldunnar.
Sykurmagnið í þessu víni er um 7 g/L og það flokkast því sem þurrt (Brut).
Vínið er ljómandi gott sem fordrykkur en það fer líka ákaflega vel með skelfiskréttum á borð við grillaða risahörpuskel eða sjávarréttapasta.
Þessi uppskrift er frá Karinu sem heldur úti matarvefsíðu sem nefnist Cafe Delites. Þar eru margar gómsætar uppskriftir sem hafa ekki brugðist okkur fram til þessa.
Hráefni:
40 ml ólífuolía
500 g risahörpuskel
40 g ósaltað smjör
4-5 hvítlauksrif
Salt og pipar eftir smekk
75 ml þurrt hvítvín (má nota kjúklingasoð)
250 ml rjómi
1 msk ferskur sítrónusafi
2 msk fersk steinselja, fínt söxuð
Aðferð
Ef hörpuskelin er frosin þarf að þíða hana í köldu vatni (eða í ísskáp yfir nótt). Fjarlægið hliðarvöðvann ef hann er til staðar. Þerrið vel.
Hitið olíuna á stórri pönnu þar til hún fer að rjúka. Saltið og piprið hörpuskelina og stekið 2-3 mínútur á hvorri hlið. Gætið þess að hafa ekki of margar á pönnunni (hafa 2-3 cm á milli), steikið frekar í 2 umferðum. Takið hörpuskelina af pönnunni og setjið til hliðar.
Setjið smjörið á pönnuna og bræðið. Steikið hvítlaukinn í 1 mínútu.
Setjið hvítvínið (eða soðið) á pönnuna og sjóðið í 2 mínútur. Setjið rjómann saman við og sjóðið í nokkrar mínútur eða þar til sósan hefur þykknað aðeins.
Takið pönnuna af hitanum. Hrærið sítrónusafa saman við og setjið hörpuskelina á pönnuna, leyfið þessu að standa í rúma mínútu og skreytið svo með steinselju.
Berið fram með hrísgrjónum, pasta, hvítlauksbrauði eða gufusoðnu grænmeti.
Verði ykkur að góðu!