Víngerðarmaðurinn Emilien Allouchery er uppalinn á vínekrum fjölskyldu sinnar við þorpið Ecueil, rétt utan við borgina Reims. Hann lærði víngerðarfræði í Champagne og Bourgogne, en hélt síðan til Nýja-Sjálands og Suður-Afríku þar sem hann aflaði sér meiri þekkingar og reynslu í víngerð. Hann tók svo við fjölskyldufyrirtækinu árið 2006 og hefur séð um það síðan.
Vín októbermánaðar er árgangsvín (millésime) frá árinu 2015. Flest kampavín eru ekki árgangsvín, heldur blöndur nokkurra árganga þar sem reynt er að hafa vínin eins milli ára. Árgangsvín aðeins gerð í góðu árferði þegar gæði vínberjanna eru nægileg. Uppskriftin er heldur ekki alltaf sú sama milli ára, þ.e. hlutfall vínberjategunda getur verið breytilegt.
Þrúgurnar í þessu víni eru Pinot Noir (60%) og Chardonnay (40%). Lítill hluti af vínsins sem gert var úr Chardonnay-þrúgunum var látið liggja á eikartunnum í nokkra mánuði áður en því var blandað saman við hin vínin. Geymsla á eikartunnum hefur áhrif á lykt og bragð vínsins og getur gefið því smá smjörkeim. Vinið var svo sett á flöskur í mars 2016 og látið þroskast í átta ár áður en það var tilbúið, að mati Emilien.
Sykurmagnið í þessu víni er aðeins 1 gramm/líter og því kallast það Extra-Brut.
Við mælum með því að þetta vín sé drukkið kalt (7-10°C). Það er dásamlegt eitt og sér, en fer líka ljómandi vel með sjávarréttum, ljósu fuglakjöti og gæsalifur.
Þessa uppskrift fundum við á heimasíðu Arla í Svíþjóð og höfum gert nokkrum sinnum – hún hefur ekki brugðist hingað til og ávallt vakið lukku. Oftast hefur kampavín með góðu hlutfalli af Chardonnay verið opnað þegar eldhúsið er tilbúið og hefjast skal handa.
Millésime 2015 Extra-Brut frá Allouchery-Perseval mun eflaust njóta sín vel með þessum þorskhnökkum!
Best er að vera búinn að rista heslihneturnar áður en eldamennskan hefst.
Fyrir 4
Hráefni
Þorskhnakkar, 4 stk, u.þ.b. 125 gr hver
1 tsk salt
50 gr smjör
1 msk japönsk sojasósa
1 tsk sítrónusafi
1/2 dL ristaðar heslihnetur, hakkaðar
1/2 búnt ferskur graslaukur, saxaður
Eplasalat
1/2 rautt epli
1/2 silfurlaukur eða 1 skalottulaukur
65 gr spínat
1 msk sítrónusafi
1 msk ólífuolía
Salt
Kartöflumús
750 gr kartöflur (sem henta í kartöflumús, t.d. Gullauga)
1 dL sýrður rjómi
1 dL mjólk
2 msk smjör
1 tsk salt
Aðferð
Byrjið á kartöflumúsinni. Sjóðið kartöflurnar mjúkar. Ef þær eru nýjar má gjarna láta hýðið vera á, en annars má afhýða kartöflurnar. Hitið sýrða rjómann með mjólkinni og smjörinu. Stappið saman kartöflurnar og hellið rjómablöndunni út í. Bragðbætið með salti.
Þurrkið fiskinn og saltið báðar hliðar, látið standa í 10 mín. Brúnið smjörið þar til það verður gullinbrúnt og byrjar að gefa frá sér hnetuilm.
Leggið fiskinn á pönnuna og lækkið hitann. Steikið í 3-4 mínútur á hverri hlið. Bætið sojasósunni, sítrónusafanum og hnetunum á pönnuna. Takið af hitanum og skreytið með söxuðum graslauk.
Á meðan þið gerið þetta fáið þið hjálp frá þeim sem þið eldið fyrir og eru að njóta kampavínsins með ykkur. Þau fá að sneiða epli og lauk eins þunnt og mögulegt er. Blandið saman spíntati, eplum, lauk, sítrónusafa, olíu og salti í salatskál.
Berið þorskhnakkana fram með eplasalatinu og kartöflumúsinni.
Njótið!